Þegar fjárfesta á í köfunarbúnaði er mikilvægt að búnaðurinn passi á kafarann. Búnaðurinn þarf líka að henta þeim aðstæðum sem það á að nota hann í. 

Til er aragrúi af búnaði og það getur verið erfitt fyrir nýliða að meta hvað hentar og hvað ekki. Hvort nýr búnaður sé nauðsynlegur eða hvort hægt sé að kaupa notaðan búnað.

Búnaður á netinu

Ef þið eruð í vafa um búnað má alltaf bera það undir reyndari kafara sem ekki hefur hagsmuni af viðskiptunum og getur því gefið hlutlaust mat.

Það kemur eflaust mörgum á óvart að nýr búnaður er oft á sambærilegu verði hér á landi og erlendis. Nýr búnaður sem keyptur er hér á landi er í ábyrgð. 

Ef keyptur er notaður búnaður þarf að gæta að því að búnaðurinn sé í lagi. Nýliðar hafa lent í því að kaupa búnað sem þeir sjá auglýstan á netinu á góðu verði. Þeir hafa keypt búnaðinn án þess að fá álit reyndari kafara en brennt sig á því að búnaðurinn hentar ekki hér við land. Sumt er gott og vel nýtilegt en annað ekki.

En hvað þarf að hafa í huga varðandi notaðan búnað og kostir við nýjan búnað?

Búnaður – Þurrgalli

 • Gallinn þarf að passa
 • Skórnir þurfa að passa
 • Háls og handar “cuff” þurfa að vera heil
 • Gallinn má ekki leka
 • Rennilás þarf að vera heill og í lagi
 • Ventlar í lagi

Ef fjárfesta á í notuðum galla sem þarf að skipta um cuff, stígvél eða rennilás þá þarf gallinn að vera mjög ódýr til þess að það borgi sig. Verð á lími og viðgerðarefni er frekar hátt.  Flestir handlagnir kafarar ættu að ráða við vinnuhlutann sjálfir. 

Búnaður – Undirgalli

Fínt er að eiga undirgalla. Líka er hægt að notast við flís og ullarfatnað. Flísfatnaður sem ekki er hannaður fyrir köfun tekur oft meira loft í sig en sérhannaður flísfatnaður. Slíkur fatnaður kallar á meira blý.

Þykkt undirgalla fer eftir því úr hvernig efni þurrgallinn er.

Fínt að fá notaðan undirgalla. Munið samt að undirgallar tapa einangrun með tímanum. Velja þarf undirgalla sem hentar gallanum sem á að klæðast. Undir Neoprene þurrgalla þarf þynnri undirgalla en undir Nylon eða Membrane galla.

Búnaður – Lungu (regulator- fyrsta og annað stig).

Lungun þurfa að vera frostþolin og henta að kafað sé með þau að lágmarki í 2°C köldu vatni og helst kaldara ef kafa á allt árið.

Ódýrari lungu sem keypt hafa verið erlendis henta alla jafna ekki hér á landi. Sum dýrari “frostþolin” lungu eru gerð fyrir kaldan sjó/vatn niður að 4°C. Þau lungu byrja alla jafna að fríflæða í Silfru eða Davíðsgjá þar sem hitastig vatnsins getur verið rétt um 2°C. 

Lungu þarf að þjónusta einu sinni á ári. Þau eru öndunarbúnaðurinn sem heldur í okkur lífinu. Lungu sem hafa ekki verið notuð í langan tíma þarf að þjónusta. Það þarf að skipta um O-hringi í þeim og yfirfara jafnvel þótt þau hafi bara verið notuð tvisvar fyrir einu og hálfu ári.

Mikilvægt er að þjónustuaðili sé til staðar hér á landi fyrir það merki sem keypt er svo að ekki þurfi að senda búnaðinn til útlanda í skoðun árlega.

Marbendill köfunarskóli mælir með að kafarar fái sér nýjan öndunarbúnað nema að sannað sé gegn nótu að búnaður sé nýlega yfirfarinn af viðurkenndum þjónustuaðila og að hann þoli köfun í köldu vatni. 

Búnaður – Flotvesti

Flotvesti koma ótal útgáfum. Aðalatriðið er að þau passi. Séu ekki of stór eða of lítil og hafi nægilegt flot til að halda kafaranum á floti á yfirborðinu.

Sum vesti eru með blýpokum sem hægt er að festa við vestið í vösum í stað blýbeltis. Mörgum finnst það þægilegt. Sérstaklega strákum sem hafa engar mjaðmir sem blýin geta hangið á. Konur eiga alla jafna ekki í vandræðum með blýbelti.

Vestin geta verið svokölluð jakkavesti sem eru með lofti bæði að framan og aftan þegar þau eru blásin upp.

Kosturinn við þau er að stöðugleikinn verður meiri á yfirborðinu. Gallinn er að þau þrengja að kafaranum á yfirborðinu.

Það eru líka vesti sem hafa blöðruna bara á bakinu. Kosturinn við þau er að þau þrengja ekki að kafaranum á yfirborðinu og auðveldara er að “detta í trimmið”. Gallinn við þau er að þau eru ekki eins stöðug á yfirborði. 

Notuð vesti geta verið góður kostur. Skoða þarf:

 • Inn og útstreymis-ranann.
 • Innstreymisventlar séu í lagi.
 • Tengi fyrir vestisslöngu passi. Sum vesti eru ekki með “universal” tengi og passa því bara fyrir sérpantaðar vestisslöngur.
 • Vestið sé heilt og blaðran leki ekki.
 • Að hringir og smellur séu í lagi.
 • Að blýpokar séu í lagi ef þeir eru samþættir vösunum á vestinu.

Búnaður – Kútar

Verðmunur á nýjum og notuðum kútum hér á landi hefur verið tiltölulega lítill. Kannski um 10-15 þúsund krónur.

Það þarf að hafa í huga að alla kúta þarf að þrýstiprófa á 5 ára fresti og sjónskoða á tveggja og hálsfárs fresti (árs fresti samkvæmt PADI en 2,5 ár samkvæmt Evrópu reglugerð).

Ef keyptur er gamall kútur þá þarf að ganga úr skugga um að hann sé þrýstiprófaður og að krani sé í lagi. Einnig þarf að huga að því hvort hann sé byrjaður að ryðga að innan. Gamall ódýr kútur er kannski ekki svo ódýr ef það þarf að byrja á því að þrýstiprófa hann (um það bil kr. 8.000) og skipta um krana (um það bil kr. 10.000). 

Búnaður – Fit

Fit verða fyrst og fremst að passa á skóna á þurrgallanum ef það á að nota þau hér við land. Mikið af fitum sem sjást á facebook síðunni “Köfunarbúnaður óskast /til sölu” eru svo kölluð “split” fit sem henta ekki vel fyrir “frog kick”.  

Þau fit sem henta hér við land eru úr gúmmíblöndu en ekki plasti því plastfit eru stíf og erfitt að synda með í köldum sjó eða vatni. Plastfit henta ekki nema í sundlaugina eða ef kafa á erlendis.

Hafa þarf í huga að gúmmí-strappar sem fara yfir hælinn trosna með tímanum og geta slitnað. Ef keypt eru fit með gúmmístrappa er ágætis regla að skipta honum út fyrir nýjan gúmmístrappa eða jafnvel gorma. 

Búnaður – Grímur og hanskar

Grímur þurf að passa á andlitið og vera með silicon ramma næst því. Plastgrímur henta ekki hér við land þar sem plastið harðnar í kuldanum og tapar þéttieiginleikum.

“Notaðar” grímur geta líka verið nýjar grímur sem hafa ekki passað á andlit viðkomandi þegar til kom og þess vegna vill hann selja.

Neopren blauthanskar tapa eiginleikum sínum smátt og smátt við notkun. Gamlir hanskar geta oft verið kaldir og gefið litla einangrun. 

Búnaður – Köfunartölvur

Köfunartölvur eru til í ótal tegundum. Einföld ódýr tölva dugar. Gott er að hafa möguleikann að skipta af lofti yfir á Nitrox á tölvunni. Flestar ódýrustu tölvurnar í dag eru með þessum möguleika. Dýrar tölvur eru ekki endilega betri. Þær kannski sýna meira, en hugsaðu fyrst um í hvað þú ætlar að nota tölvuna og hvað þarftu að sjá.

Allir nemendur Marbendils köfunarskóla geta fengið aðstoð við val á búnaði hvort sem hann er nýr eða notaður.

What's your reaction?
0Cool0Bad0Lol0Sad

Leave a comment